Gerðu grein fyrir fátækt þinni!
Ég hef áhuga á samfélagsmálum. Fyrsti bloggpósturinn minn er tileinkaður gjaldtöku grunnskóla í tilefni þess að skólar eru margir búnir að birta innkaupalistana. Þ.á.m. skóli sem fékk úrskurðað í stjórnsýslukæru að mega ekki mæla með skipulagsbókinni Skjóðu/Skjatta á innkaupalistum nemenda, þar sem það er ólögmætt. Samt sem áður tilgreinir skólinn bókina sérstaklega á innkaupalista komandi skólaárs 2016-2017 og hunsar þar með úrskurðinn.
Hægt er að lesa nánar á urskurdir.is með því að smella hér.
Ég tel að allir nemendur eigi að geta tekið þátt í skólastarfi og viðburðum því tengdu og fráleitt að sumir foreldrar séu knúnir til að greina frá persónulegum högum eins og efnahag til að svo megi verða. Ég veit fyrir víst að það vekur upp kvíða hjá mörgum að þurfa að leggja út fyrir námsgögnum en ekki síður að þurfa að segja frá bágri stöðu og biðja um aðstoð. Finnst reyndar furðulegt að það þyki ásættanlegt að foreldrar þurfi að ræða við kennara eða aðra um efnalega stöðu sína því vandséð er að það samræmist grundvallarmarkmiðum grunnskólalaga um jafnan aðgang að almennri menntun.
Barnasáttmálinn sem hefur verið lögfestur hér á landi kveður á um gjaldfrjálsa grunnmenntun. Ljóst er að breyta þarf grunnskólalögum í samræmi við ákvæði barnasáttmálans. Sumir grunnskólar skaffa nemendum sínum öll námsgögn sem er vel en þyrfti að samræma til hagsbóta fyrir alla grunnskólanemendur. Vert er að benda á að komið hefur fram í úrskurðum vegna gjaldtöku grunnskóla að það beri að túlka þröngt þau hjálpargögn sem hefð hefur verið að rukka fyrir. Hægt er að skoða innkaupalista og velta fyrir sér hvort svo sé í raun.
Hér er slóð á úrskurð vegna vettvangsferðar sem hafði það að markmiði að efla félagsleg tengsl nemenda en þeir sem sáu sér ekki fært að mæta/borga áttu að sitja í skólanum. Í úrskurðinum kom m.a. fram að almennt verði að telja ferðir sem skipulagðar eru á starfstíma grunnskóla til hluta af skyldunámi nemenda. “…Það er jafnframt mat ráðuneytisins að það samræmist ekki grundvallar markmiðunum laga um grunnskóla, um almenna menntun og um jafnan aðgang að slíkri menntun, að foreldrum sé gert að velja á milli þess hvort börn þeirra taki þátt í vettvangsferð sem skipulögð er sem hluti af skyldunámi þeirra eða sitji ella kennslu í skóla á meðan á vettvangsferð stendur…”