Umhverfisfélagsráðgjöf hefur verið kölluð ýmsum nöfnum og er græn félagsráðgjöf eitt þeirra. Hún tengist “deep ecology” en það er sjónarhorn sem tekur mið af náttúru og umhverfi í víðasta skilningi. Einnig er tenging við “eco spiritural social work” sjónarhorn sem tekur mið af hefðum og menningu. Nöfn eins og “environmental socialwork” og “eco socialwork” eru í sama flokki.
Áhersla félagsráðgjafar hefur frá upphafi verið á manneskjuna í samspili við umhverfið. Græn félagsráðgjöf leggur áherslu á umhverfisvernd og sjálfbærni í námi og starfi félagsráðgjafa. Hefur græn félagsráðgjöf m.a. verið skilgreind sem umhverfismiðuð samfélagsvinna sem tekur með náttúruna í sinni víðustu mynd. Af því leiðir að hlutverk félagsráðgjafa felist í að tala fyrir félagslegu réttlæti að meðtöldu umhverfisréttlæti, þar sem heilsusamlegt umhverfi er hluti af mannréttindum og mannlegri reisn. Ójafn aðgangur að auðlindum útilokar stóran hóp fólks frá aðgangi að hreinu vatni, íbúðarhæfu húsnæði, heilsugæslu og menntun.
Gengið hefur verið á auðlindir heimsins þannig að um ósjálfbærni er að ræða þar sem hluti af mannkyni líður skort á meðan ofneysla annarra skaðar umhverfi og auðlindir. Félagsleg sjálfbærni er hugtak sem í felst að veita fátæku fólki og öðrum jaðarhópum aðgang að auðlindum og stuðla að virkri þátttöku þeirra í samfélaginu eins og hefð er fyrir í félagsráðgjöf.
Alþjóða félagsráðgjafasamtökin (NASW) ályktuðu og gáfu út yfirlýsingu árið 1999 um að ofnýting auðlinda (environmental exploitation) stangist á við alþjóðlegar siðareglur félagsráðgjafa. Alþjóðaráð um menntun félagsráðgjafa (CSWE) hefur einnig ályktað um að sjálfbærni sé forgangsmál þegar kemur að félagslegu réttlæti. Hægt að lesa greinina hér
Umhverfisvernd tengist málsvarahlutverki félagsráðgjafa sem t.d. gera stjórnvöldum viðvart og tala máli fólks gagnvart mengandi stóriðju sem hefur heilsuspillandi áhrif á hópa, þ.á.m. börn sem neyðast til að búa á vissum landsvæðum vegna fátæktar. Sífellt fleiri landsvæði eru í áhættu vegna umhverfisskaða og hamfara út frá loftslagsbreytingum og sífellt fleiri börn búa á slíkum svæðum. Því er það hlutverk félagsráðgjafa að tala fyrir umhverfisvernd og sjálfbærni í samfélögum heimsins.
Græn félagsráðgjöf er nátengd hefðbundinni samfélagsvinnu og miðar að því að auka velferð og lífsgæði einstaklinga, hópa og samfélaga.
Ofangreint byggist m.a. á BA ritgerð minni um græna félagsráðgjöf og sjálfbærni, en tengill er hér þar sem nálgast má heimildir.