Dagana 24.-27. maí 2017 var haldið doktorsnámskeið í hamfarafélagsráðgjöf í Háskóla Íslands. Á síðasta degi námskeiðsins, þann 27. maí, var 30 félagsráðgjöfum boðið að taka þátt í námskeiðinu sem fór fram á ensku. Doktorsnemarnir kynntu lokaverkefni sín í litlum hópum fyrir okkur félagsráðgjöfunum sem tókum jafnframt þátt í áhugaverðum umræðum.
Meðal fyrirlesara voru félagsráðgjafarnir Professor Lena Dominelli og Dr. Carole Adamson frá Nýja Sjálandi. Professor Lena Dominelli var annar aðalfyrirlesara á IFSW European Conference sem Félagsráðgjafafélag Íslands hélt í Hörpu dagana 28.-30. maí 2017.
Dominelli hélt fyrirlestur undir yfirskriftinni “Greening Social Work Practice and curriculum.” Hún fjallaði um þá staðreynd að æ fleiri jarðarbúar glíma við afleiðingar umhverfislegra áfalla sem bitnar mest á viðkvæmum hópum. Til þess að bregðast við bæði manngerðum og náttúrulegum hamförum er nauðsynlegt að samþætta græna félagsráðgjöf inn í námskrá félagsráðgjafar. Kallað hefur verið eftir kennslu og rannsóknum í því sambandi.
Umhverfisvernd og samfélagsvinna ná afur til upphafs félagsráðgjafar. Ein af frumkvöðlum félagsráðgjafar Jane Addams, sjá hér hafði umhverfislegt sjónarhorn á aðstæður þar sem hún vann að umhverfismálum og félagslegum umbótum í samfélaginu. Dominelli telur að félagsráðgjafar eigi að koma að borðinu þar sem stefnumótun fer fram og vinna með öðrum fagstéttum að því að halda á lofti grænum gildum og afla grænni félagsráðgjöf brautargengis.
Alþjóðasamtök félagsráðgjafa hafa sett sjálfbærni samfélags og umhverfis á oddinn fyrir næstu ár undir yfirskriftinni: Hvernig geta félagsráðgjafar stuðlað að sjálfbærni samfélags og umhverfis? Þetta er fremur nýtt svið í félagsráðgjöf og hamfarafélagsráðgjöfin fellur þarna undir.
Félagsráðgjafafélag Íslands, Nordress og Velferðarvaktin voru bakhjarlar vinnustofunnar sem Félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands hélt.
2 Athugasemdir
Áhhgavert efni Er hægt að nálgast fyrirlestur Dominelli einhvers staðaf?
Því miður veit ég ekki hvort það er hægt. Skal samt tékka á því og setja tengil ef svo er.