Uppi eru áform borgaryfirvalda um fjölbýlishúsabyggð í viðkvæmu umhverfi við Reynisvatn í Grafarholti. Samkvæmt nýrri kynningu borgarstjóra er gert ráð fyrir 49 íbúða byggð við vatnið á þróunarreit (Þ 103), sjá má mynd hér. Ekki fæst betur séð en það sé í hróplegu ósamræmi við markmið Reykjavíkurborgar sem stefnir á að vera leiðandi í stefnu um líffræðilega fjölbreytni í náttúru Reykjavíkur. Sjá má slóð hér.
Í aðalskipulagi Reykjavíkurborgar er talað fyrir verndun opinna svæða auk þess sem skil milli útivistarsvæða og þéttbýlis séu skerpt. Í skipulaginu er lögð fram stefna um vistvæna byggð og byggingar. Markmið stefnunnar er að öll hverfi borgarinnar þróist og byggist þar upp á sjálfbæran hátt.
Þá er vert að spyrja, en hvað með tengsl ósnortinnar náttúru við sjálfbærni? Hvað með Reynisvatn og umhverfið þar? Í sjálfbærni felast einnig þau takmörk sem náttúran setur og ber að virða. Sú virðing felst í virkri náttúruvernd og hófstilltri nýtingu þegar kemur að umsvifum okkar, í þágu komandi kynslóða. Slóð á aðalskipulagið er hér.
Í umhverfisskýrslu (2013) um aðalskipulag Reykjavíkur frá 2010-2030 er ekkert að finna sérstaklega um þessi áform við Reynisvatn. Þar segir að byggðaþróun kunni að hafa áhrif á útivistarsvæði og aðgengi að útivistarsvæðum. Fram kemur að 4% reitanna sem ætlað er að séu teknir undir byggð, séu á opnum svæðum sem hafa útivistargildi. Sjá hér.
Í umhverfisskýrslunni er einnig kafli um áhrif á borgarhluta og áherslur íbúa, þar sem kemur skýrt fram að íbúar í Grafarholti- og Úlfarsárdal vilja taka þátt í gerð hverfaskipulags. Það er einmitt málið, Grafarholtsbúar hafa sterkar skoðanir á þessu umhverfismáli. Á íbúasíðu okkar á Facebook hafa verið uppi eindregnar kröfur um að borgin hætti við þessi byggingaráform.
Þá hefur hverfisráð einnig gagnrýnt að skipulag byggingareits (Þ103) sé enn á dagskrá þrátt fyrir marg ítrekaðar athugasemdir íbúa og hverfisráðs um að þar verði ekki byggt, heldur verði þetta skipulagt sem útivistasvæði fyrir íbúa hverfisins og borgarbúa alla. Í september sl. óskaði hverfisráðið eftir að boðað yrði til opins íbúafundar með borgarstjóra og fulltrúum USK fljótlega. Enn hefur ekki orðið af þeim fundi.
Erfitt er að sjá hvernig fjölbýlishúsabyggð í svo viðkvæmu umhverfi eigi að samræmast sjálfbærniáherslum aðalskipulags, hvað þá áherslum um “Grænu borgina Reykjavík” sjá hér.
Kannski væri nær að vernda umhverfið enn frekar?